Það er orðið dálítið síðan að ég fann heimili sem veitti mér innblástur og þessa “aaaahhh hvað þetta er fallegt” tilfinningu. Sænsku fasteignaheimilin virtust hafa hertekið fréttaveituna mína þar sem ég fylgist með öllum bloggunum mínum og allt í einu fannst mér allir búa eins, sem er svo sannarlega ekki rétt. En þegar sömu húsgögnin, sömu plönturnar og sömu rúmteppin voru farin að birtast á fleiri en 10 heimilum þá er þetta komið gott. Ekki misskilja mig, ég elska sænsk heimili og þessi skandinavíski stíll heillar mig upp úr skónum en núna langar mig að sjá meira af heimilum þar sem fólk býr en ekki allar fasteignamyndirnar þó þær geti verið að hrikalega smart oft á tíðum. Hér er eitt hollenskt heimili sem er ólíkt flestum sem ég birti en vá hvað mér þykir það vera fallegt. Stíllinn er svo ofsalega persónulegur og er svo sannarlega heillandi með öllum þessum sérstöku munum sem er erfitt að átta sig á hvaðan eru. Hjónin Ina og Matt sem þarna búa eru reyndar bæði menntuð sem innanhússhönnuðir og reka saman hönnunarstofuna Ina+Matt þar sem þau hanna saman m.a. hótel, heimili og verslanir svo þau vita hvað þau syngja þegar kemur að innanhússhönnun.
Myndir: Morten Holtum / Bo Bedre.
Diamond stóllinn eftir Harry Bertoia er draumaeign flestra hönnunarunnenda ásamt Walnut kollinum eftir Eames hjónin en báðir prýða stofuna. Heimilið tóku hjónin alveg í nefið en þetta er gömul hlaða sem þau rákust á í vinnuferð og ákváðu að gera að sumarhúsinu sínu, þó voru þau ekki lengi að ákveða að selja heimilið sitt í Amsterdam og flytja í sveitina. Það er draumur hjá mér að fá einn daginn að taka í gegn mitt eigið hús, vá hvað ég held að það sé skemmtilegt verkefni.