Þetta er eitt af skemmtilegri innlitum sem ég hef sýnt og það kemur að sjálfsögðu frá uppáhalds tímaritinu mínu Bolig Magasinet. Hér býr húsgagnasmiðurinn Pär Ottosson ásamt konu sinni Lovisu Ovesen verslunarstýru í H&M ásamt tveimur börnum sínum. Pär er titlaður konungur DIY verkefna á vefsíðu Bolig en hann á þann titil svo sannarlega skilið en hann er stanslaust að breyta og bæta heimilið, “Að horfa á sama sófann og sama veggfóðrið veitir okkur engan innblástur, heimilið okkar á ekki að vera eins og safn frosið í tíma, heldur partur af okkur. Þessvegna erum við alltaf að breyta til.” Kíkjum á þetta geggjaða heimili sem er stútfullt af góðum hugmyndum…
Innréttinguna málaði Pär pastelbleika en eldhúsið er eitt af þeim smekklegri sem ég hef séð. Eins og hann segir sjálfur “Pastellitir gera mig hamingjusamann, þeir gera andrúmsloftið léttara í rýminu og skapa gleði.”
Borðstofuljósið er heimagert með því að líma heklaðar dúllur á blöðru sem er svo sprengd.
Pär segir að stíllinn á heimilinu sé “litríkur, glaðlegur og tilgerðarlaus. Okkar eiginn stíll er meginþráðurinn, það er einnig mikilvægt að heimilið er líka fyrir börnin og þeirra þörfum þarf að vera mætt við hönnun rýmisins.”
Parið er mjög duglegt að prófa hugmyndirnar sínar á barnaherberginu sem er fyrir vikið mjög líflegt. Búðarglugginn í kústaskápnum er sérstaklega skemmtilegur.
Hér vakna menn líklegast alltaf í góðu skapi?
Heimasmíðaðar hillur og róla í barnaherberginu.
Dóttirin fékk að sjálfsögðu heimatilbúið rúm í anda prinsessunnar á bauninni.
Myndir via Bolig MagasinetViðtalið við hann er stórskemmtilegt en það er hægt að lesa hér, þar gefur hann einnig nokkur góð ráð fyrir heimaföndrara sem ég mæli með að kíkja á og fá góðar hugmyndir. Svo verð ég nú að nefna hversu frábært mér finnst að hann hafi málað eldhúsið sitt pastel bleikt. Meira svona!